Samtímaritheimildir um Spánverjavígin 1615

Helstu útgefnu samtímaheimildirnar um skipbrot baskneskra hvalveiðimanna og afdrif þeirra eru:

1) Dómar og bréf frá árunum 1615 og 1616. Birt í Alþingisbókum Íslands, 4. bindi. Ari Magnússon sýslumaður var í þeirri stöðu að geta haft áhrif á hvað birtist í opinberum skjölum því að í gerðabækur Alþingis eru ekki skráð önnur mál en þau sem lögð voru fyrir þingið.

2) Greinar í annálum frá 17. og 18. öld, prentaðar í Annálum 1400-1800, helst í bindum I-IV. Annálarnir eru fáorðir um veru hvalveiðimanna hér við land og skrifaðir áratugum eftir að Spánverjavígin áttu sér stað. Vestfirsku annálarnir voru ritaðir af afkomendum Magnúsar prúða, föður Ara sýslumanns.1

3) Jón Guðmundsson lærði. Veturinn eftir vígin skrifaði hann Sanna frásögu af Spanskra manna skipbrotum og slagi, eftir frásögn sjónarvotta sem varðveist hefur í a.m.k. þrem handritum. Hann dregur hvergi fjöður yfir það sem miður fór í framkomu Baskanna en lýsir atburðunum eins og hann sá þá. Síðar á ævinni orti Jón ævikvæði sitt Fjölmóð þar sem hann lýsir viðureign sinni við Ara í Ögri og útlegðinni sem hann var dæmdur til.

4) Spönsku vísur eftir séra Ólaf Jónsson á Söndum. Gömul munnmæli segja að þær hafi verið ortar að beiðni Ara í Ögri til að andmæla Sannri frásögu Jóns lærða og réttlæta aðgerðir Ara. Í vísunum er basknesku hvalveiðimönnunum lýst sem blóðþyrstum sjóræningjum, þjófum og nauðgurum.

5) Víkingarímur eftir óþekktan Jón sem líklega var frá Patreksfirði, í rímunum eru skipbrotsmenn lastaðir, brot þeirra talin upp og um þá eru notuð hlutdræg orð, s.s. bófar, illvirkjar og þeim eignuð hatur og illska.2

Heimildirnar eru þannig ekki alveg samhljóma. Sönn frásaga Jóns lærða virðist vera hlutlausust, Fjölmóður er á bandi Baskanna og er illur út í ýmsa Íslendinga. Ari Magnússon var í þeirri valdastöðu til að geta haft áhrif á hvað birtist í gerðabókum Alþingis og sem réttlætir gerðir hans. Annálarnir voru ritaðir af ættmönnum Ara. Spönsku vísur og Víkingarímur eru ef til vill ortar til að þóknast Ara í Ögri og hugsanlega ætlað að vera skoðanamyndandi.

Til eru fleiri samtímaheimildir en þær eru helst að finna í bréfa- og skjalasöfnum, hérlendis sem erlendis.

Víg Spánverja á Vestfjörðum 1615 og Spönsku vísur epir séra Ólaf á Söndum
Spönsku vísur - Rímur; Ísland, 1600-1700
Fjölmóður ævidrápa Jóns Lærða Guðmundssonar