Aðferð við veiðar

Með því að setja saman þekkingarbrot um hvalstöðvar og veiðiaðferðir við Labrador og á Svalbarða má ætla að veiðiaðferðir hafi farið fram á eftirfarandi hátt: Þegar komið var á veiðislóð, byrjaði leiðangursstjóri á að finna vel varið skipalægi fram undan þeim stað á landi þar sem hvalstöð var sett upp og bræða mátti lýsi.

Það þurfti að vera auðvelt að flytja lýsistunnur milli bræðslustaða og skipa. Næst var að búa til aðstöðu í landi, hlaða bræðsluofn og reisa skýli yfir. Í þeim tilgangi tóku Baskar með sér af heiman nagla, leir og tígulsteina.48

Hvert leiðangursskip flutti með sér nokkra litla hvalveiðibáta, txalupa. Fjöldi þeirra fór eftir stærð skipsins. Á siglingu yfir úthafið var bátunum staflað inn í hvern annan og geymdir á þilfari skipsins og ekki settir á sjó fyrr en á áfangastað var komið. Hvalveiðarnar sjálfar fóru fram á þessum litlu bátum.

Eftir að komið var auga á hval var hvalveiðibátnum róið eða siglt hljóðlega. Dýrið var nálgast aftan frá og báturinn staðsettur milli hvals og úthafs þannig að dýrið myndi hörfa í átt að landi. Þegar báturinn var kominn í fárra metra færi var hvalskutlinum skotið eins djúpt og mögulegt var í hvalinn. Ef tími vannst til var öðrum skutli skotið sem dró á eftir sér dreka, eða lítið akkeri sem merkt var með bauju.

Þegar dýrið fann fyrir skotinu synti það venjulega hratt í burtu og dró á eftir sér hvalalínu sem fest var í framstafn bátsins. Heimild er fyrir að hvalur hafi dregið hvalbát í allt að 40 km.49

Línan var um 300 m löng og stundum þurfti að skera á hana ef skepnan kafaði djúpt. Þegar dýrið róaðist og kom upp á yfirborðið til að anda, unnu veiðimennirnir á því með spjótum og stungu helst í mikilvæg líffæri eins og hjarta og lungu. Veiðibráðin var síðan tekin í tog í átt að hvalstöðinni og gat sú ferð tekið marga klukkutíma.

Hvalurinn var flensaður eða skorinn ýmist við skipshlið eða í fjörunni. Skipin voru útbúin vindum og gálgum þannig að velta mátti hvalnum á ýmsa vegu og auðvelda skurðinn. Spikinu var flett af dýrinu, það flutt að ofninum og brætt í járn- eða koparpottum.

Eldsneyti ofnanna var viðarkol, sprek og olíudreggjar sem flutu upp á yfirborðið við bræðsluna. Lýsisbræðslan var þannig sjálfbær að nokkru leyti.

Bráðinni fitu var síðan ausið upp í ílát með köldu vatni. Vatnið kældi, olían flaut upp á yfirborðið en sorinn sökk til botns. Olían var síðan síuð yfir í tunnur sem staflað var um borð í skipin.50

Undir lok 16. aldar dró úr sókn Baska til Labrador og er ástæðan talin vera fækkun í hvalastofninum við Nýfundnaland, loftslagsbreytingar og stjórnmálaaðstæður í Evrópu.

Árið 1596 fannst Svalbarði og þar uppgötvuðust stórar vöður af Grænlands-Sléttbak. Umfangsmiklar hvalveiðar hófust þar í upphafi 17. aldar. Þangað sóttu Baskar, Bretar, Hollendingar og Danir sem allir gerðu tilkall til hvalveiða á svæðinu. Fljótlega hófust deilur milli þeirra enda miklar auðlindir í húfi.

Á árunum 1612-1615 kom til átaka og þó hver höndin væri upp á móti annarri var lagst á eitt að bægja Böskum frá. Einveldi Baska yfir hvalaafurðum leið undir lok.51 Baskar drógu úr hvalveiðum sínum en vanir hvalveiðimenn fengu vinnu á hvalveiðiskipum annarra þjóða þar sem þeir voru fengnir til að kenna aðferðir sínar.52