Hvalveiðar við Nýfundnaland

Eftir landafundina barst til Evrópu vitneskja um gjöful fiskimið við Nýfundnaland. Baskar fóru þangað í fyrstu til fiskveiða en snéru sér síðan einnig að hvalveiðum. Hvalveiðar þeirra við Nýfundnaland hófust um árið 1530 og náðu hámarki við lok 16. aldar.

Helsta hvalveiðistöð Baska við Nýfundnaland var Red Bay á suðurhluta Labrador. Fornleifarannsóknir hafa farið fram á staðnum sem einnig fóru fram neðansjávar og niðurstöður þeirra hafa gefið okkur þekkingu á skipakosti, verkfærum og umfangi hvalveiða á 16. öld. Á staðnum hafa fundist m.a. þrjú galleon skipsflök og fjórir hvalveiðibátar.

Skjalfestar heimildir um þessar veiðar eru brotakenndar en ályktað er að á þessu tímabili hafi Baskar sent þangað til veiða, að jafnaði 15 hvalveiðiskip á ári og talið er að hvert skip hafi tekið um 12 hvali á hverri vertíð.38 Óhætt er því að telja að ekki færri en 13.000 hvalir hafi verið veiddir við Nýfundnaland á 16. öld.

Leiðangursskip sem send voru frá Baskalandi til Nýfundnalands á 16. öld höfðu ekki minni burðargetu en fyrir 200 tonn og heimildir eru um 650 tonna skip.39 Hvallýsið eða olían var flutt í tunnum sem samkvæmt staðli frá árinu 1576 átti að rúma 211 lítra af olíu.40 Á tímabilinu 1530 til 1600 flutti hvert skip árlega 1000 tunnur af olíu frá Nýfundnalandi til Evrópu að meðaltali sem gera að lágmarki 15.000 tunnur á ári.41

Meðalverð sem fékkst fyrir hverja tunnu var 6 dúkatar en dúkatur var gullmynt sem notuð var á þessum tíma. Það gera 6.000 dúkata fyrir olíufarm hvers skips að lágmarki því eftir er að reikna verðmæti annarra afurða s.s. hvalskíða sem eftir 1580 gat verið jafn mikils virði og olían.42 Kanadíski sagnfræðingurinn Jean-Pierre Proulx telur að framreiknað núvirði tunnunar nemi 5000 dollurum.43 Árlegt lágmarks meðalverðmæti hvers skipsfarms var því 5.000.000 dollarar að núvirði að hvalskíðunum frátöldum.

Aflahlutinn skiptist í þrennt. Áhöfnin fékk í sinn hlut einn þriðja hluta aflans, skipseigandi einn fjórða hluta og útgerðaraðilar fengu afganginn.44

Hvalveiðileiðangrar til Nýfundnalands voru af allt annarri stærðargráðu en strandveiðar heima fyrir. Leiðangurinn var kostnaðarsamur og undirbúningur hófst mörgum mánuðum áður en lagt var af stað. Það þurfti að gera skipin klár, útvega öll aðföng vegna veiðanna, lýsisbræðslunnar og flutnings olíunnar, draga að vistir til margra mánaða og annað sem áhöfnin þarfnaðist.

Í áhöfninni gat verið 50 til 120 manns, allt eftir stærð skipa. Gert er ráð fyrir 25 manna áhöfn fyrir hver 100 tonn.45 Útgerðaraðilar voru félög auðmanna, s.s. kaupmanna og járnsmiðjueigenda.46 Hvalveiðar við Nýfundnaland var áhættufjárfesting sem gat gefið mikið af sér en hætturnar voru miklar vegna veðurs og sjóræningja sem sátu fyrir hvalveiðiskipum á heimleið.

Hægt var að kaupa tryggingar fyrir skip og farm hjá tryggingaraðilum í Burgos og stundum var sama sjóferðin tryggð hjá fleirum en einum aðila.47