Hvalveiðimenn drepnir

Snemma sumars 1615 sáust mörg hvalveiðiskip við Hornstrandir, flest þeirra héldu í burtu, í átt að Svalbarða, en a.m.k. þrjú þeirra urðu eftir við veiðar hér við land. Þau skip fórust í ofsaveðri þann 21. september 1615 í Reykjarfirði á Ströndum og það voru skipbrotsmenn af þeim sem myrtir voru að áeggjan Ara Magnússonar í Ögri.

Skipstjórar þeirra hétu Pétur de Argvirre, Stefán de Tellaria og Marteinn de Villafranca. Þeir Pétur og Stefán höfðu verið hér við land áður við hvalveiðar og höfðu á sér gott orð en Marteinn var hér í fyrsta skipti.

Hafís sem lónað hafði úti fyrir rak inn fjörðinn og braut skip þeirra Péturs og Stefáns. Skip Marteins rak upp í fjöru og brotnaði þar. Þrír skipverjar fórust en það tókst að bjarga einhverju af varningi skipanna. Nokkrir litlir hvalveiðibátar voru enn uppi á landi þegar skipin fórust og 82 eða 83 skipbrotsmenn lifðu af.

Þegar veðrinu slotaði dreif að heimamenn, sumir höfðu samúð með skipbrotsmönnum og buðu nokkrum þeirra til dvalar, aðrir óttuðust andstöðu yfirvalda vegna banns á samskiptum við útlendinga. Flestum bændum í sveitinni hefur ef til vill óað við að taka við svo stórum hópi manna til framfærslu. Öðrum hefur ef til vill staðið stuggur af þeim.

Skipbrotmönnum var sagt frá skútu sem Gunnsteinn bóndi á Dynjanda í Leirufirði átti. Strandamönnum virðist hafa verið kunnugt um stærð skútunnar því Jón lærði segist hafa sagt þeim að á þessari skútu mundu þeir aldrei ná yfir hafið. En fleyið freistaði og fóru Baskarnir á átta hvalveiðibátum norður fyrir Horn og inn til Jökulfjarða.

Þegar til Leirufjarðar kom vildi Gunnsteinn bóndi engin viðskipti þá hafa, fór af bænum og lét reka kvikfé að heiman. 13 kýr sluppu frá honum og komu heim að fjósi. Baskarnir bundu þær á bás og biðu heimamanna.

Gunnsteinn neitaði skipbrotsmönnum allra funda. Eftir tvær nætur bjuggust þeir til brottfarar og tóku með sér eina kvígu í nesti. Samkvæmt Sannri frásögu skiptust hér leiðir. Skipverjar af skipum Péturs og Stefáns, u.þ.b. 50 manns, héldu á tæplega haffærri skútu Gunnsteins í áttina að Patreksfirði með viðkomu í Önundarfirði, en Marteinn og skipverjar hans héldu inn á Ísafjarðardjúp á fjórum bátum þar sem þeir skiptu sér aftur í tvo hópa. Marteinn fór með 18 menn til Æðeyjar á tveim bátum en 14 manns fóru til Bolungarvíkur, á hinum bátunum tveim, þar sem þeir dvöldu eina nótt áður en þeir héldu áfram til Þingeyrar í Dýrafirði.

Ritheimildir á borð við Spænsku vísur nefna að þessi hópur 14 skipbrotsmanna hafi farið um með ránum. Þeir komu við hjá prestinum á Stað í Súgandafirði og ,,gripu þar margt“, þaðan geystust þeir áfram til Þingeyrar með sinni ,,hnuplan og griplum“. Á þingeyri fóru þeir í danska verslunarhúsið og stálu þaðan salti og skreið en fáu öðru. Þeir bjuggu síðan um sig í sjóbúðinni Skaganausti á Fjallaskaga við mynni Dýrafjarðar norðanmegin.

Dýrfirðingar þekktu eflaust ekki til þessara manna en óttuðust e.t.v. að hér væru sjóræningjar á ferð enda var mikið um þá í Norðurhöfum á þessum árum,61 til dæmis höfðu enskir sjóræningjar farið fram með ofbeldi og ránum í Vestmannaeyjum árið 1614.62 Heimamenn brugðust því skjótt við og söfnuðu liði.

Þann 5. október 1615 fóru 30 manns að næturlagi og drápu alla Baskana nema ungling sem komst undan til þeirra skipbrotsmanna sem siglt höfðu skútunni til Önundafjarðar.

Í Sannri frásögu segir að 5 menn hafi vakað yfir bátunum en hinir 9 verið sofandi inni í naustinu. Heimamenn umkringdu húsið og einum þeirra tókst að laumast að vaktmönnunum og taka frá þeim vopn. Þegar hann reyndi í annað sinn urðu Baskar hans varir og særðu hann. Heimamenn komu til aðstoðar og voru ,,bátavaktarar saxaðir og sundraðir“. Síðan var farið gegn þeim sem í húsinu voru, þakið rofið og mennirnir, sem vörðust vasklega, drepnir. Að því loknu var herfang tekið, mennirnir afklæddir og líkunum sökkt í sjóinn.

Ari Magnússon var af annarri valdamestu ætt landsins.63 Hann hafði ástæðu til að óttast reiði og refsingu konungs því hann hafði í leyfisleysi gefið Böskum leyfi til hvalveiða og þegið greiðslu fyrir. Aðeins ári áður (árið 1614) hafði Gísli Þórðarson lögmaður á Arnarstapa þurft að segja af sér embætti og greiða háar sektir fyrir að hafa leyft Englending að taka fálka á nesinu hjá sér.

Eftir útgáfu Konungsbréfsins 1615 gat Ara hafa orðið ljóst að hann átti á hættu að missa konungshylli vegna veiðileyfanna sem hann gaf Böskum og sem stríddu gegn stefnu konungs. Þótt Ari hafi ekkert aðhafst á meðan hvalveiðar stóðu yfir snérist hann gegn skipbrota hvalveiðimönnum af mikilli hörku. Hann boðaði til dómþings í Súðavík, 8. október 1615 og ólíklegt er að honum hafi á þeim tíma borist fréttir af Dýrafjarðarslag.

Tólf manna dómur dæmdi skipbrotsmennina 18 sem höfðu komið sér fyrir í Æðey sem réttdræpa óbótamenn. Við dóminn var stuðst við Konungsbréfið frá 1615 og Þjófabálk Jónsbókar. Í dóminum voru talin upp neikvæð atriði samskipta Baska og Íslendinga undanfarin ár. Ari sendi út herkvaðningu og stefndi til sín liði til að leggja til atlögu gegn Böskunum í Æðey.

Jón lærði segir í Sannri frásögu að bændum var gert að koma á eigin kostnað og sektir lágu við ef þeir komu ekki. Sumir komu fúsir því þeim var lofað öllu herfangi en aðrir komu ófúsir. Um 50 manna lið var saman komið að Ögri þann 10. október.

Marteinn hafði komið sér fyrir til vetursetu í Æðey með sína 18 menn. Þaðan stunduðu þeir fisk- og hvalveiðar. Æðey á Ísafjarðardjúpi er ekki langt frá Ögri. Það að skipbrotsmenn skyldu koma sér fyrir í túnfætinum hjá Ara bendir til að þeir áttu sér einskis ills von, bjuggust ef til vill fremur við velvild valdmannsins sem hafði áður þegið af þeim fé fremur en aftöku.

Ari frétti að Baskarnir hefðu veitt hval og að Marteinn og flestir mannanna væru að gera að honum á Sandeyri, utarlega á Snæfjallaströnd. Í Æðey voru aðeins 5 manns sem máttu sín einskis gegn 50 manna liði og voru þeir drepnir umsvifalaust. Líkin voru afklædd og þeim kastað í sjóinn.

Ari og lið hans héldu áfram til Sandeyrar sömu nótt. Þar hittu þeir fyrir Martein ásamt fáum mönnum í útihúsi á hlaðinu, hinir sátu inni í baðstofu. Nokkrir af mönnum Ara umkringdu bæinn en aðrir réðust að húsinu sem Marteinn var í og skutu inn um dyr og glugga. Marteinn svaraði ekki skotunum en kallaði út og baðst griða enda hefði hann og hans menn ekkert gert á hlut Íslendinga.

Ari veitti Marteini grið og bað hann að afhenda vopnin, sem hann gerði og kom sjálfur út á eftir. Ari missti nú stjórn á sínum mönnum því einn þeirra hjó til Marteins með öxi. Við höggið brá Marteini, hann stökk upp og hljóp út í sjó og synti frá landi. Lið Ara hóf nú grjótkast að honum en Marteinn synti undan með söng. Þetta vakti bæði undrun og aðdáun Íslendinga. Þeir eltu hann á báti og Marteinn synti fimlega undan uns einum tókst að kasta grjóti í höfuð hans.Svo virðist sem Ari sýslumaður hafi ekkert gert til að stöðva griðrofin.

Líki Marteins var síðan ýtt til lands þar sem því var misþyrmt. Síðan voru allir menn Marteins drepnir og líkunum sökkt í sjóinn. Vildu nú liðsmenn sýslumanns skipta herfanginu sem þeim var lofað en þá lýsti Ari því yfir að fjármunir Baskanna væru konungseign en í Sýslumannsæfum segir Bogi Benediktsson að Ari ,,hafi haft sinn fullan hluta af fé þeirra, sem annarsstaðar þar sem hann kom því við“.64 Liðið fékk ekkert að launum nema blóðstokkin föt og að drekka vín Baskanna.

Um 50 skipsbrotsmenn sigldu frá Dynjanda í Leirufirði til Patreksfjarðar með stuttri viðkomu á Ingjaldssandi og í Önundarfirði. Á Vatneyri í Patreksfirði bjuggu þeir um sig í verslunarhúsum sem stóðu annars auð yfir veturinn. Þaðan réru þeir til fiskveiða og fóru um sveitir í leit að mat. Þetta var harður vetur og erfitt um aðdrætti.65 Þeir virðast hafa hrætt fólk þótt þeir sýndu ekki alltaf yfirgang.

Heimildir segja að Baskarnir hafi í fyrstu verið kurteisir í framkomu, og tekið hattinn ofan. Eftir áramótin 1616 boðaði Ari Magnússon til þings að Mýrum í Dýrafirði. Líkt og í Súðavík lét hann þann dóm út ganga að skipbrotsmennirnir skyldu réttdræpir. Veður og ófærð kom í veg fyrir að Ari kæmist til Patreksfjarðar með her sinn.

Baskarnir þraukuðu nú út veturinn og þegar sást til komu erlends fiskiskips, mönnuðu þeir báta sína og hertóku skipið.Síðan lögðu þeir á hafið en um afdrif þeirra er ekki vitað.