Baskneskir hvalveiðimenn á Íslandi

Baskar sáust fyrst við Ísland í upphafi 17.aldar. Þeir stunduðu hér hvalveiðar á árunum 1613-1615. Í Skarðsannál fyrir 1613 segir frá spænskum hvalskutlurum sem lágu kringum allt Ísland á 18 skipum.

Jón lærði segir í Fjömóði að árið 1614 voru við veiðar 9 spænsk skip og 1 franskt, flest í Steingrímsfirði og á Kersvogi í Reykjafirði.

Baskarnir voru frá Gipuzkoa og Laburdi héruðum sem eru beggja vegna landamæra Spánar og Frakklands. Fram að þeim tíma höfðu samskipti Íslendinga við útlendinga helst takmarkast við norður-Evrópubúa þannig að hugsanlegt er að Baskar voru meðal fyrstu þjóða af rómönsku málsvæði sem Íslendingar kynntust.

Til eru í handriti basknesk-íslensk orðasöfn sem talið er að hafi verið tekin saman á Vestfjörðum á síðari hluta 17. aldar. Tilefni orðasafnanna virðist hafa verið verslun.

Heimildir segja frá erjum milli Íslendinga og Baska sem ætla má að stafaði helst af misskilningi og menningarmun. Báðar þjóðir þekktu sauðfjárbúskap, búskap á rýrum jörðum og fátækt en Baskar komu þaðan sem nóg er af trjám og gerðu sér e.t.v. ekki grein fyrir hversu mikilvæg hlunnindi rekaviður var hér á landi. Einnig var kvartað undan ,,stráksskap“ Baskanna. Íslendingum sem voru upp til hópa bláfátækir og oft kúgaðir leiguliðar landeigenda, hefur ef til vill þótt Baskarnir full frjálsmannlegir í fasi enda voru þeir samkvæmt lögum og samningi við eigin krúnu frjálsir menn og með forréttindi.55

Baskneskir sjómenn komu Íslendingum sjálfsagt fyrir sjónir sem hraustir menn og eljusamir. Í Baskalandi þótti eftirsóknarvert að komast á hvalveiðiskip og einungis hraustir menn fengu skipsrúm.56 Við hvalveiðarnar voru þeir í vinnu fyrir sjálfa sig en þriðjungur þess sem þeir öfluðu kom í þeirra hlut.57

Járn var í aldaraðir mikilvæg útflutningsvara frá Baskalandi því er auðvelt að ímynda sér að skipverjar hvalveiðiskipanna fluttu með sér öngla, potta, hnífa og önnur bitjárn, járnvörur sem Íslendingum hugnaðist vel til eignar. Jón lærði segir að sumir landar sínir hafi stolið frá Böskum og síðan borið fyrir sig tungumálaerfiðleika þegar að greiða átti úr slíkum málum.

Jón lærði segir að Baskarnir hafi boðið bændum að koma til hvalskurðar og taka eins mikið kjöt og þeir gátu borið en vildu helst fá eitthvert smáræði fyrir fremur en ekkert.

Hvalveiðimennirnir sóttust eftir að kaupa kindur og nautgripi til matar en virðist oft hafa verið neitað um viðskipti. Þeir gripu þá stundum til þess að taka það sem þá vantaði.58