Hvalveiðar
Baskar byrjuðu snemma að nýta sér afurðir hvala en hvalavöður gengu árstíðabundið inn á Biskajaflóa.
Ekki síðar en á 11. öld var svo komið að Baskar hættu að reiða sig á sjórekinn hval og hófu sjálfir að skutla hval20 og eru þeir taldir frumkvöðlar í þeirri veiðiaðferð21 sem hélst nánast óbreytt fram á miðja nítjándu öld.
Hvalveiðar virðast vera orðinn sjálfstæður atvinnuvegur á 12. til 13. öld og hvalur og hvalveiðibátar fara að birtast á innsiglum og skjaldarmerkjum ýmissa bæjarfélaga Baskalands, s.s. Biarritz, Lekeitio og Getaria.22
Megintilgangurinn með hvalveiðum var öflun lýsis úr spikinu sem var mikilvægur ljósgjafi. Á miðöldum var lýsið einnig notað m.a. í kerta- og sápugerð og við ullarvinnu.
Síðar meir urðu skíði hvalsins eftirsótt, enda sterk og sveigjanleg og notuð við gerð lífstykkja, regnhlífa og veiðistanga.23
Sem ljósgjafi voru yfirburðir hvallýsis miklir. Olían brann með bjartari loga og minni reyk en aðrir ljósgjafar s.s. tólgarkerti og jurtaolía.24 Baskar voru fyrstir til að framleiða hvallýsi í atvinnuskyni.25 Í Evrópu var traustur markaður fyrir vöruna þegar á 12. og 13. öld og eftirspurnin jókst stöðugt.
Baskar sóttu helst eftir að veiða sléttbak (Eubalaena glacialis) sem Baskar kölluðu Sardako Balea á sínu máli.26 Hann hefur það mikið fituinnihald að hann sekkur ekki við dauða. Fitulagið getur verið allt að 60 sm þykkt og gefur því mikið lýsi af sér. Hann er grunnsjávarhvalur, um 13-16 m að lengd fullvaxinn og um 40-50 tonn að þyngd. Hann er afar hægsyndur og fer mest 4-7 km á klukkustund.
Oftast fara sléttbakar um einir eða fáir saman. Líkaminn er gildvaxinn og ummálið þar sem hann er sverastur getur verið um 60% af lengdinni.27 Íslands-sléttbakur gekk inn á Biskajaflóa að haust- og vetrarlagi.28
Reistir voru útsýnisturnar sem voru mannaðir frá október til mars til að fylgjast með blæstri hvala og kallkerfi var komið á, m.a. með trumbuslætti sem veitti veiðimönnunum upplýsingar um tegund og fjölda hvala.29
Hvalveiðar voru samvinnuverkefni samfélaganna. Þegar sást til hvals var bátur settur á flot og hægfara hvalurinn eltur uppi.30
Við hvalveiðarnar notuðu Baskar fjölnota árabáta sem nefnast txalupa (chalupa, scoops) sem höfðu venjulega sex manna áhöfn með skutlara og stýrimanni.
Hvalaskutlun er veiðiaðferð sem krefst mikillar nálægðar við veiðibráðina. Veiðimenn þurfa því að vera djarfir menn og góðir ræðarar sem geta beitt bátnum hratt og fimlega.
Við fornleifarannsóknir á Labrador fannst baskneskur hvalveiðibátur sem lýst er að sé eikarbátur, 8 metra langur og 2 metra breiður. Ofansjávar eru borðin á súðinni sköruð en neðansjávar er báturinn með slétta súð. Báturinn hafði borið tvö siglutré, framsiglu og stórsiglu.31
Til miðrar 17. aldar voru hvalveiðar eingöngu stundaðar meðfram ströndum og unnið var úr aflanum á landi, þar sem hvalurinn var skorinn og aðstöðu til að bræða lýsi var komið upp. Vitað er um 47 hafnarbæi við Biskajaflóa sem gerðu út á hvalveiðar á einhverjum tímapunkti.32
Um árið 1640 fann Baskinn Francois Sopite upp aðferð til að bræða lýsi um borð í skipum og eftir það voru hvalveiðar ekki lengur takmarkaðar við strandveiðar og vinnslustöðvar á landi.33
Það voru íbúar Gipuzkoa sem tóku snemma forystu við að notfæra sér eftirspurnina eftir hvallýsi. Þeir gerðu út hvalveiðileiðangra, til að byrja með vestur með norðurströnd Spánar allt til Galisíu.
Fyrsta veiðisvæðið sem Baskar leituðu til út frá Biskajaflóa virðist hafa verið við Írland og sérstaklega á 16. öld stunduðu þeir þar miklar veiðar.34 Leiðangursskipin sigldu venjulega á sömu veiðislóð eins lengi og miðin þóttu fengsæl.
Eftirspurnin eftir hvallýsi hélt áfram að aukast næstu aldirnar,35 allt þar til aðrir ljósgjafar uppgötvuðust, s.s. steinolía. Baskar voru nánast einráðir á markaði með hvalaafurðir þar til um aldamótin 160036 og magnveiðar þeirra á hvölum í atvinnuskyni náði hámarki á 16. öld.37