Umhverfi og uppruni
Baskar eru þjóðflokkur sem býr í vesturhluta Pýreneafjalla meðfram Biskajaflóa á landsvæði sem nú á dögum nær bæði yfir Frakkland og Spán.
Baskar kalla land sitt Euskal Herria sem merkir, landið þar sem Euskera er töluð en tungumálið er einmitt það sem hefur afmarkað Baska sem þjóð. Uppruni þeirra er ókunnur og tungumál þeirra er ekki skylt neinu öðru þekktu tungumáli í heiminum.
Fyrir u.þ.b. 5000 árum komu til Evrópu þjóðflokkar af indó-evrópskum uppruna. Málvísindamenn eru almennt sammála um að baskneska sem ekki er af indó-evrópskum uppruna eigi sér eldri rætur.3
Fyrstu rituðu heimildir um Baska eru frá þeim tíma er Baskaland lenti innan áhrifasvæðis Rómaveldis, eftir Gallastríðin 58-50 f.Kr. Heimildirnar greina frá þjóðflokkum sem tala basknesku og búa á svæðinu frá Ebro ánni í suðri og norður til Garonne árinnar í Frakklandi.
Nú á dögum er Baskaland rúmlega 20.000 ferkílómetrar að stærð eða um fimmtungur af stærð Íslands. Það skiptist í sjö héruð þar sem talaðar eru sjö mállýskur. Þrjú héraðanna eru innan Frakklands en fjögur héraðanna eru innan Spánar.
Baskaland einkennist af bröttum fjöllum og þröngum dölum. Þótt landið sé grænt ásýndum er það í raun ekki gott landbúnaðarland, um langan tíma lifði fólkið helst af sauðfjárrækt og fiskveiðum.
Landgæði heima fyrir áttu eflaust þátt í að Baskar sóttu snemma út á hafið því fiskveiðar og aðrar sjávarnytjar virðast hafa hafist snemma á þessu svæði.
Í hellum steinaldarmanna sem bjuggu þar fyrir 12.000 árum hafa fundist leifar fiskbeina og skelja sem bera vott um mataræðið. Hellamálverk af fiskum, s.s. karfa, hafa einnig fundist sem er fágætt því myndefni steinaldarmanna var oftar landdýr, s.s. dádýr og hestar. Þó lítið sé vitað um forsögu Baska áður en Rómverjar komu á svæðið eru sumir sem álíta að Baskar séu elsti núlifandi þjóðflokkurinn í Vestur-Evrópu.
Fornminjarannsóknir gefa til kynna að á þessu horni Evrópu hafi verið nánast samfelld byggð í allt að 30.000 ár. Niðurstöður nýlegra genarannsókna renna stoðum undir þá skoðun að Baskar séu að einhverju leyti afkomendur þeirra steinaldarmanna sem bjuggu á svæðinu áður fyrr.4