Yfirvald á Íslandi
Árið 1615 var Kristján IV konungur yfir Íslandi. Hann er þekktur fyrir kostnaðarsaman ríkisrekstur og viðleitni sína til að bæta stöðu danska ríkiskassans. Hann náði Íslandsversluninni úr höndum Hamborgara og seldi þrem borgum Danaveldis einkaleyfi til verslunar hér á landi.
Öll verslun við aðrar þjóðir en Dani varð ólögleg og þeir Íslendingar sem gerðust sekir um slíkt máttu eiga von á hörðum refsingum. Kaupmönnum var bannað að fjárfesta á Íslandi, hafa hér vetursetu eða ráða Íslendinga í vinnu.
Við siðaskiptin lagði krúnan undir sig jarðeignir klaustra og biskupa á Íslandi. Konungur seldi ekki jarðirnar heldur hélt þeim og hirti af þeim afgjaldið.53 Leigan af þessum eignum var stór hluti af tekjum konungs af Íslandi næstu aldirnar.
Umsjón með jörðunum höfðu sýslumenn sem fengu hluta leigunnar að launum. Sýslumenn, lögmenn og biskupar sóttust eftir jarðakaupum og það var valdhöfum hagsmunamál að hafa aðgang að öruggu vinnuafli á jörðum sínum. Lög voru sett til að koma í veg fyrir samkeppni um vinnuaflið og landsmönnum var bannað að ráða sig í vinnu til útlendinga.
Fram til ársins 1615 hafi Kristján IV fallist á að leyfa utanríkismönnum hvalveiðar við Ísland og Norður-Noreg gegn því að sérstaklega væri greitt fyrir aðstöðuna. Árið 1615 varð viðsnúningur á afstöðu konungs, þá var öllum öðrum en þegnum Danaveldis bannað að stunda hvalveiðar við Ísland, Færeyjar og Norður-Noreg. Danakonungur fékk áhuga á hvalveiðum Dana við Norður-Noreg og Svalbarða. Fyrstu dönsku skipin fóru þangað til hvalveiða árið 1615, hugsanlega með veiðarfæri úr baskneskum hvalveiðiskipum sem dönsk herskip höfðu gert upptæk við Norður-Noreg.
Þær skipatökur ollu málaferlum milli dönsku krúnunnar annars vegar og skipaeigenda og útgerðaraðila hins vegar sem töldu sig hafa gild veiðileyfi.54
Konungsbréf barst til Íslands í apríl 1615. Í því segir að landsmönnum sé bannað að eiga viðskipti eða samskipti við baskneska hvalveiðimenn og veiðar þeirra hér við land séu ólöglegar. Í bréfinu segir einnig að heimamenn megi taka skip Baskanna og drepa þá með þeim aðferðum sem þættu hentugastar. Ara Magnússyni sýslumanni Ísafjarðarsýslu og Strandasýslu var falið að framfylgja því sem í bréfinu stóð í umboði konungs.
Flest bendir til að Konungsbréfið hafi verið gefið út í framhaldi af klögumálum áranna á undan þar sem kvartað var yfir framferði Baska hér á landi.
Velta má þó vöngum yfir ástæðu konungs til svo harkalegrar tilskipunar. Hvort hagur ríkiskassans og von um gróða af hvallýsi hafi skipt máli og hvort tilgangurinn með Konungsbréfinu hafi verið að hrekja Baska á brott með það að markmiði að styrkja einokunaraðstöðu Dana til hvalveiða við Ísland.