Stjórnarfar og saga
Ættarsamfélag var við lýði, fólk kenndi sig við fjölskylduhúsið, etxe, fremur en staði. Öll ,,hús“ áttu fulltrúa á þingi þar sem fjallað var um málefni samfélagsins.5
Fulltrúar samfélaganna hittust reglulega við stórt eikartré í Gernika þar sem þingað var og sammælst um lög eða samfélagssáttmála sem byggðist á gömlum hefðum og er þekkt undir heitinu Fueros.
Lögin gátu verið breytileg eftir landssvæðum eða frá einum dal til annars. Frá miðöldum og allt fram á seinni hluta 19. aldar héldu menn áfram að hittast við eikina í Gernika til að ráða ráðum sínum í skipulögðum sveitarráðum, juntas.6
Það virðist sem Rómverjar hafi haft lítinn áhuga á Baskalandi og létu Baska að mestu í friði. Á þjóðflutningatíma þegar að Rómaveldi liðaðist í sundur tókst Böskum ágætlega að berja frá sér aðkomumenn.
Á níundu og tíundu öld voru Baskar staðsettir milli stríðandi fylkinga, Franka í norðri og Mára í suðri sem höfðu lagt undir sig ríki Vest-Gota á Spáni.7 Einnig var ógn af víkingum sem komu af hafi.8
Á þessum tíma var dregin sú lína sem nú á dögum 'markar landamæri Frakklands og Spánar og lentu héruðin Laburdi, Nafarroa Beherea og Zuberoa, svonefnt Iparralde, innan ríkis Franka. Innan landamæra Spánar eru héruðin Gipuzkoa, Bizkaia, Álava og Navarra.
Á miðöldum tóku samfélög Baska þátt í ýmsum ríkjasamböndum og í Navarra var stofnað konungsríkið í Pamplona en alltaf lögðu Baskar mikið kapp við að halda í sín eigin lög, Fueros.
Eftir að Baskahéruðin Spánarmegin, Gipuzkoa, Bizkaia og Álava, fóru undir krúnu Kastilíu árið 1199 voru samfélagssáttmálarnir, Fueros, staðfestir sem persónulegt samkomulag milli valdhafa Kastilísku krúnunnar annars vegar og sveitarráða Baska hins vegar. Þannig tíðkaðist það allt til seinni hluta nítjándu aldar.
Fueros veitti Böskum ákveðið sjálfstæði og forréttindi. Meðal annars skyldu þeir hafa fullt ferðafrelsi og nýtingarrétt á eigin landi. Þeir voru skilgreindir sem ,,hidalgo“ eða frjálst bornir menn og skyldu njóta forréttinda sem slíkir. Þeir voru undanþegnir skatti til krúnunnar en sveitarstjórnir ákváðu upphæð peningagjafar sem gefin var konungi persónulega. Þeir höfðu rétt til sjálfsvarna og þeir höfðu algert verslunarfrelsi.9