Verslun og siglingar

Baskar voru stórveldi þegar kemur að siglingum Evrópumanna út á Atlantshafið. Undir lok miðalda höfðu þeir náð langt í smíði nothæfra úthafsskipa og þeir voru meðal fremstu sjómanna Evrópu. Margir nafngreindir Baskar voru t.d. um borð í skipum Kólumbusar og í leiðangri Magellan umhverfis hnöttinn.

Mynd tekin frá: http://bertan.gipuzkoakultura.net Mynd tekin frá: http://bertan.gipuzkoakultura.net Innsigli San Sebastinan frá 1297

Ekki er vitað hvenær Baskar hófu verslun og flutninga í meira mæli en venjuleg vöruskipti við nágranna sína. Skjalfest verslunarleyfi hefur varðveist frá miðri 11. öld10 og á 13. öld birtast skip og bátar á innsiglum og skjaldarmerkum bæja í Baskalandi s.s. San Sebastian/Donostia, sem bera vott um mikilvægi siglinga fyrir staðina.

Miðaldir voru góðir tímar fyrir verslun og viðskipti Baska. Þeir bjuggu við toll- og skattfrelsi sem gerði landið nánast að fríverslunarsvæði.11

Útflutningsvörur voru m.a. afurðir úr járni sem þeir voru þekktir fyrir, ull, vín og síðar á miðöldum fiskur og lýsi. Meðal innflutningsvara má nefna vefnaðarvörur og leður.

Elsta skjalfesta heimildin um vöruflutninga er frá árinu 670 þegar 40 tunnur (moyos) af hvallýsi voru sendar frá Bayonne í Baskalandi til Jumieges klaustursins, nálægt Le Havre í norður Frakklandi.12

Á þeim tíma voru ekki góðar vegasamgöngur þannig að líklegt er að flutningar fóru fram á sjó. Það bendir til að á sjöundu öld gátu Baskar byggt nógu stór skip til að flytja farm um langan veg.13

Baskar áttu allar þær auðlindir sem nauðsynlegar voru til skipasmíða, skóga, járn og viðarkol til að vinna járnið. Hágæða málmgrýti finnst í fjöllum Bizkaia héraðs og leifar af gjalli finnst víða sem ber þess vitni að þar hafi áður járn verið unnið.14 Nóg var af skógum, ekki síst eikartrjám sem vaxa margbogin þannig að finna mátti eðlilega lögun trjáa fyrir mikilvæga parta skipsins.

Tré til skipasmíða voru felld á tímabilinu október til janúar og þegar tungl fór minnkandi sem gaf af sér timbur með litlum safa og þannig meira þoli gagnvart fúa.15

Eftir að skipasmíðar urðu að mikilvægum atvinnuvegi á miðöldum var farið að rækta eikina sérstaklega, trjágreinar voru snyrtar og þær sveigðar til þannig að tréð óx í þá lögun sem sóttst var eftir.

Talið er að viðurinn hafi verið sniðinn til á þeim stað sem trén voru felld og síðan fleytt niður eftir ám að árósum þar sem skipasmíðastöðvar voru staðsettar.

Það er ekki vitað í smáatriðum hvernig skipin sem Baskar byggðu á miðöldum litu út. Þau skip sem nú á dögum sjást á sjóminjasöfnum eru svokölluð tilgátuskip.

Skipin sem byggð voru, voru ýmist opnir fiskibátar eða kaupskip. Kaupskipin voru ekki stór, burðargeta þeirra yfirleitt ekki meiri en fyrir 300 tunnur eða um 75 tonn.

Eigendum þeirra hefur eflaust ekki þótt taka því að hafa skipin stærri, hafnarstæði voru víða ekki góð frá náttúrunnar hendi, þannig að ferming og afferming fór fram með léttabátum og skipin þurftu að vera meðfærileg svo gerlegt væri að taka þau öðru hvoru upp á land til viðhalds.

Á fjórtándu öld var stýrið komið í skutinn og um miðja fimmtándu öld varð breyting á hönnun skipanna. Í stað þess að byrðingurinn væri skarsúðaður var algengt að hafa súðina slétta sem jók burðarþol skipanna.

Þessi tegund skipa sem þróaðist á fimmtándu öld hefur verið nefnd karavella hér á landi en Spánverjar kölluðu skipið nao og Frakkar kölluðu skipið nef.

Skip Baskanna voru byggð í margnota tilgangi. Flutningar og verslun voru e.t.v. helsti tilgangurinn en skipin voru einnig notuð til fiskveiða, hvalveiða og til hernaðar.

Fram á miðja 16. öld voru eigendur skipanna gjarnan skipasmiðirnir sjálfir sem leigðu skipin út eftir þörfum en einnig auðugir kaupmenn og samvinnufélög fjárfesta.

Á átakatímum gat spænska krúnan gert tilkall til skipanna til að nota þau í hernaði og skipin voru einnig notuð í landkönnunarleiðangra.16

Eigendur leigðu skipin út fullbúin til siglinga, með seglum, vopnum og skotfærum. Nokkrir lykilmenn áhafnarinnar fylgdu einnig með, s.s. skipstjóri, stýrimaður, bátsmaður og bryti og greiddu eigendur skipanna laun þeirra.

Sama áhöfn, að hluta til, var því alltaf um borð á skipunum hvort sem um var að ræða verslunarferðir, vöruflutninga frá nýlendum í Ameríku eða hvalveiðar.

Lántakinn annaðist síðan rekstur skipsins meðan á leigunni stóð, réð til starfa leiðangursstjóra og restina af áhöfninni ásamt því að útvega vistir.

Ef skipið var leigt út til fisk- eða hvalveiða sá útgerðaraðilinn sem tók skipið á leigu um að útvega veiðarfæri og allan nauðsynlegan búnað vegna veiðanna.17

Eftir landafundina hófust Ameríkusiglingar. Hinar löngu siglingaleiðir kölluðu eftir betri nýtingu skipa og spænska krúnan bauð hagstæð lán til skipasmíðastöðva sem smíðuðu stærri skip en 150 tonn.

Alla sextándu öldina fóru skipin sífellt stækkandi.18 Í Evrópu einkenndist sextánda öldin af trúarbragðaátökum, erfðastríðum, siglingum og sjóránum.

Spánverjum stafaði skaði af sjóræningjum sem störfuðu oft með skjalfestu leyfi sinnar eigin krúnu og leituðust við að sitja fyrir Ameríkuförum með verðmætan farm.

Spænska krúnan fyrirskipaði að öll skip skyldu vígbúast og búin fallbyssum.19 Ný tegund skipa leit dagsing ljós, galleon, sem er stórt rásiglt skip með þremur eða fjórum þilförum, notað bæði sem farskip og herskip.

Smám saman leystu hin stóru galleon skip karavellurnar af hólmi og eignarhald á skipum breyttist.