Safnasýningar
Söfn í Baskalandi
Albaola Donibane Pasaia/San Pedro Pasajes
http://www.albaola.com/en/site/shared-history
Verið er að endurgera hvalveiðiskipið San Juan, karavellu sem byggð var í Donibane Pasaia/San Pedro Pasajes árið 1563, en sökk árið 1565 í Red Bay í Kanada.
Neðansjávar fornleifauppgröftur var gerður á upprunalega skipinu árið 1978 og er fundarstaðurinn á heimsminjaskrá Unesco.
Byrjað var að endurgera skipið árið 2013.
Í apríl 2013 heimsótti undirrituð verkstæðið. Þar voru spjöld um hvalveiðar Baska og smíðin sjálf í raun ekki hafin, heldur var enn verið að vinna viðinn. Þá var verið að vonast til að skipið yrði tilbúið árið 2016 en það ár verður Donostia/San Sebastian menningarborg Evrópu og mikið gert úr því.
Í júlí 2015 fór ég í aðra heimsókn og þá var komin upp ný sýning og smíði skipsins var lengra á veg komin. Ráðgert er að verkinu ljúki árið 2019.
Safnið er í rauninni verkstæði, eða slippur réttara sagt, en búið er að koma upp stóru sýningarrými um svæðið þar sem gengið er um og fræðst um skipasmíði hvalveiðiskipanna, trén sem þau voru byggð úr, járnið sem var unnið í þau og svo framvegis. Sýningin er að mestu á spjöldum á basknesku, spænsku, frönsku og ensku. Búnir hafa verið til gripir til að skapa rétt andrúmsloft.
Aðal sýningargripurinn er skipið sem er í smíðum og um það snýst safnið. Heimildarmynd er til sýnis um gerð basknesk árabáts sem notaður var við hvalveiðar og hvernig gekk að sigla honum við Nýfundnaland. Einnig er fjallað um sögu hvalveiðanna, en ekki er fjallað sérstaklega um Íslandsferðir basknesku hvalveiðimannanna, nema að Ísland er á korti sem sýnir hvert þeir fóru til veiða. Einkum er fjallað um 16. öldina á safninu. Hægt er að styrkja verkefnið með því að kaupa hluti í smíðina, t.d. nagla.