Safnasýningar


Söfn í Baskalandi


Albaola Donibane Pasaia/San Pedro Pasajes
http://www.albaola.com/en/site/shared-history

Verið er að endurgera hvalveiðiskipið San Juan, karavellu sem byggð var í Donibane Pasaia/San Pedro Pasajes árið 1563, en sökk árið 1565 í Red Bay í Kanada.
Neðansjávar fornleifauppgröftur var gerður á upprunalega skipinu árið 1978 og er fundarstaðurinn á heimsminjaskrá Unesco.
Byrjað var að endurgera skipið árið 2013.

Í apríl 2013 heimsótti undirrituð verkstæðið. Þar voru spjöld um hvalveiðar Baska og smíðin sjálf í raun ekki hafin, heldur var enn verið að vinna viðinn. Þá var verið að vonast til að skipið yrði tilbúið árið 2016 en það ár verður Donostia/San Sebastian menningarborg Evrópu og mikið gert úr því.
Í júlí 2015 fór ég í aðra heimsókn og þá var komin upp ný sýning og smíði skipsins var lengra á veg komin. Ráðgert er að verkinu ljúki árið 2019.

Safnið er í rauninni verkstæði, eða slippur réttara sagt, en búið er að koma upp stóru sýningarrými um svæðið þar sem gengið er um og fræðst um skipasmíði hvalveiðiskipanna, trén sem þau voru byggð úr, járnið sem var unnið í þau og svo framvegis. Sýningin er að mestu á spjöldum á basknesku, spænsku, frönsku og ensku. Búnir hafa verið til gripir til að skapa rétt andrúmsloft.
Aðal sýningargripurinn er skipið sem er í smíðum og um það snýst safnið. Heimildarmynd er til sýnis um gerð basknesk árabáts sem notaður var við hvalveiðar og hvernig gekk að sigla honum við Nýfundnaland. Einnig er fjallað um sögu hvalveiðanna, en ekki er fjallað sérstaklega um Íslandsferðir basknesku hvalveiðimannanna, nema að Ísland er á korti sem sýnir hvert þeir fóru til veiða. Einkum er fjallað um 16. öldina á safninu. Hægt er að styrkja verkefnið með því að kaupa hluti í smíðina, t.d. nagla.

Untzi Museoa/Museo naval Donostia/San Sebastian
http://untzimuseoa.eus/en/exhibitions/past/40-baleazaleak-cazadores-de-ballenas

Sjóminjasafn Donostia/San Sebastian var opnað árið 1991. Í júlí 2015 var sýning um þorskveiðar Baska (sem stendur yfir frá desember 2014 til nóvember 2015), en í apríl 2013 var sýning um hvalveiðar Baska (sem stóð yfir frá apríl 2011 til júní 2013).

Sú sýning fjallaði um sögu hvalveiða Baska í nokkrar aldir. Sýningin er söguleg og að mestu á textaspjöldum í nokkrum sýningarsölum safnins, svo gengið er réttri í tímaröð um sýninguna. Einnig voru nokkrir gripir til sýnis og lítil módel af hvalveiðiskipum. Ekki var heldur fjallað heldur sérstaklega um Íslandsleiðangrana en minnst var á þá.
Sýningin tók skyndilegum breytingum í lokasalnum en þá var fjallað um hvalveiðar nú á dögum og til sýnis voru ljósmyndir frá Green Peace. Þá var minnst á Ísland, en ekki í tengslum við hvalveiðar Baska.

Söfn á Íslandi


Þjóðarbókhlaðan Reykjavík
http://landsbokasafn.is/index.php/news/795/15/Spanverjavigin-1615

Á Þjóðarbókhlöðunni, Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafni, eru handrit sem geyma Sanna Frásögu Jón Guðmundssonar lærða.

Strandagaldur Hólmavík
http://www.galdrasyning.is/

Árið 1996 hófst vinnan við Galdrasýninguna en þar er fjallað stuttlega um Jón lærða, höfund Sannrar frásögu og Fjölmóðs. Einnig koma á síðu safnins upplýsingar og myndir tengdar fornleifauppgreftinum á Strákatanga þar sem talið er að hvalveiðimenn hafi sett upp aðstöðu til að bræða lýsi á 17. öld.

Litla hvalasafnið Ferstiklu Hvalfirði
http://www.ferstikla.is/hvala.html

Litla hvalasafnið opnaði árið 2011 í litlu rými í þjónustumiðstöðinni Ferstiklu í Hvalfirði.

Hvalasafnið Húsavík
http://www.hvalasafn.is/hvalveidar/hvalveidar-fyrr-2/

Hvalasafnið var stofnað árið 1997 og fjallar að mestu um hvalina sjálfa, búsvæði þeirra, hvaða tegundir eru hér við land, hvalaskoðun og rannsóknir og verkefni sem eru í gangi. Einnig er fjallað um sögu hvalveiða hérlendis, bæði nú á dögum og í gegnum tíðina og þá er talað um hvalveiðar Baska á Íslandsmiðum. Þar eru teikningar eftir Jón lærða til sýnis. Sýningin er að mestu á textaspjöldum og sjá má beinagrindur margra hvala.