2015 apríl Þjóðarbókhlaðan

Á árinu 2015 voru 400 ár liðin frá Spánverjavígunum. Á minningarárinu stóð Baskavinafélagið á Íslandi í samvinnu við erlend menningarfélög fyrir mikilli dagskrá sem hófst í apríl með tónleikum í Salnum Kópavogi með basknesku þjóðlaga hljómsveitinni Oreka TX, ásamt Steindóri Andersen, Hilmari Erni Hilmarssyni, Páli Guðmundssyni frá Húsafelli og strengjasveit.

Dagana 20. og 21. apríl var haldin alþjóðleg ráðstefna í Þjóðarbókhlöðunni í Reykjavík um Spánverjavígin og nýútgefnar bækur kynntar, meðal annars ný útgáfa af ritinu Spánverjavígin 1615 sem byggð er á Sannri frásögu Jóns Guðmundssonar lærða. Bókin var gefin út á íslensku, ensku, spænsku og basknesku.

Þau sem tóku til máls voru Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir, Hólmfríður Garðarsdóttir, Mari Jose Olaziregi, Xabier Irujo, Viola Miglio, Margrét Jónsdóttir Njarðvík, Ragnar Edvardsson, Álvaro Aragon, Viðar Hreinsson, Torfi Tulinius, Helgi Þorláksson, Magnús Rafnsson, Rikardo Etxepare, Aurélie Arcocha-Scarcia, Einar G. Pétursson, Hjörleifur Guttormsson, Ólína Þorvarðardóttir, Tapio Koivukari, Michael M. Barkham, Sigurður Sigursveinsson, Ólafur J. Engilbertsson, Sigrún Antonsdóttir og Úa Hólmfríður Matthíasdóttir.

Farið var með ráðstefnugesti á hvalasýninguna út á Granda, Whales of Iceland og þann 22. apríl hélt hópurinn á Hólmavík á galdrasafnið Strandagaldur þar sem minningarskjöldur var afhjúpaður og Jónas Guðmundsson, sýslumaður Vestfjarða afturkallaði tilskipun Ara í Ögri um að Baskar væru réttdræpir að viðstöddum héraðsstjóra Gipuzkoa/Guipúzcoa Martin Garitano, menningarstjóra héraðsins Ikerne Badiola, Illuga Gunnarssyni menningarmálaráðherra og Esther Ösp Valdimarsdóttur og Jón Gísla Jónssyni fyrir hönd Hólmavíkur. Farið var með baskneska sjómannabæn, táknræn sáttaathöfn fór fram, leikskólabörn sungu og Steindór Andersen kvað rímur Jóns lærða, Fjölmóð.

Um kvöldið lá leiðin að Strákatanga í Hveravík í Steingrímsfirði. Þar sýndi Magnús Rafnsson fornleifauppgröftinn sem þar hefur farið fram.
Um nóttina var gist á Laugarhóli og Kotbýli kuklarans heimsótt.

Sumardaginn fyrsta, 23. apríl, var allt hulið snjó, en Magnús Rafnsson benti gestum á staði þar sem líklegt þykir að fornleifar eftir Baskana finnist. Eins og Strákey og Kóngsey. Farið var í Reykjafjörð þar sem hvalveiðiskipin þrjú fórust og Djúpavík heimsótt.

Dagskrá viðburðanna er að finna hér:
http://baskavinir.is/dagskra-2/
http://baskavinir.is/english/
http://www.etxepare.eus/es/programa-del-iv-centenario-de-la-matanza-de-balleneros-vascos-en-islandia-1615