Eftirmáli

Íslendingar óttuðust hefndaraðgerðir af hálfu Baska en til þeirra kom aldrei. Það verður að teljast óhugsandi að Spánarkonungur hafi látið það óátalið að komið væri fram við þegna sína á þennan hátt en heimildir um viðbrögð konungs eru ekki þekktar. Ef til vill eiga eftir að koma í dagsljósið heimildir á Spáni úr skjalageymslum sveitarfélaga, skipaeigendafélaga, útgerðaraðila eða tryggingarfélaga sem varpa ljósi á afdrif og eftirmála basknesku skipbrotsmannanna.

Hér á landi var það hins vegar Ari sýslumaður sem hafði mest áhrif á hvað birtist í opinberum skjölum um þessa atburði. Eini hérlendi maðurinn sem mótmælti framgöngu Ara sýslumanns, var bóndinn Jón Guðmundsson lærði sem skrifaði fáeinum mánuðum eftir atburðina Sanna frásögu af spanskra manna skipbrotum og slagi eftir frásögn sjónarvotta og er rit hann meginheimildin um þessa atburði.